Beint á efnisyfirlit síðunnar

Skrifstofa BSRB

Skrifstofa BSRB er til húsa á 2. hæð Grettisgötu 89, í Reykjavík.

Skrifstofan innir af hendi margs konar þjónustu við aðildarfélögin. Auk þess sér starfsfólkið um daglegan rekstur bandalagsins, innheimtu aðildargjalda fyrir aðildarfélögin og samskipti innanlands sem utan. Á skrifstofunni starfa tíu manns.

Skrifstofan er opin alla virka daga frá 8-16, en svarað er í síma frá klukkan 9-16.

 

Hlutverk BSRB er að fara með forystu í hagsmuna- og réttindabaráttu starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði. Þannig kemur BSRB fram fyrir hönd aðildarfélaga sinna gagnvart stjórnvöldum, stofnunum, hagsmunasamtökum, Alþingi og viðsemjendum aðildarfélaga bandalagsins. BSRB tekur þátt í innlendu, norrænu og alþjóðlegu samstarfi við önnur samtök launafólks ásamt því að koma fram fyrir hönd bandalagsins gagnvart stofnunum og samtökum.

Þjónusta BSRB við aðildarfélögin er fjölþætt en t.d. styður bandalagið og eflir aðildarfélögin við gerð kjarasamninga og hagmunagæslu félagsmanna. Þá eru samráðsfundir aðildarfélaga vegna kjarasamningsgerðar haldnir reglulega. Skrifstofa BSRB veitir einnig aðildarfélögum sínum hagfræði- og lögfræðiráðgjöf. Þá annast starfsfólk skrifstofu margháttaða fræðslustarfsemi s.s. með kennslu á trúnaðarmannanámskeiðum BSRB og opnum fræðslu- og upplýsingafundum um hin ýmsu málefni.

Verkefni skrifstofu BSRB eru fjölbreytt og varða bæði innra starf bandalagsins og ytra. Fulltrúar bandalagsins eiga sæti í fjölda nefnda, ráða og stjórna á vegum stjórnvalda, stofnana og aðila vinnumarkaðarins.

• Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga (SALEK)
• Starfshópur um endurskoðun almannatrygginga
• Samráðsvettvangur um aukna hagsæld
• Samstarfshópar með annars vegar Reykjavíkurborg og hins vegar stjórnvalda vegna tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar
• Samráðshópur um EES – regluverk
• Nefnd um framtíðarskipan fæðingarorlofsmála
• Samráð vegna endurskoðunar lífeyrismála opinberra starfsmanna
• Framkvæmdastjórn VIRK
• Aðgerðarhópur um launajafnrétti á vinnumarkaði
• Jafnréttisráð
• Stjórnir Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (LSS) ásamt starfsnefndum
• Starfsgreinaráðum og vinnumarkaðsráðum
• Stjórn Vinnueftirlitsins
• Félagsdómur
• Höfundaréttarráð

 Þá undirbýr skrifstofa BSRB og hefur umsjón með þingi BSRB sem er haldið þriðja hvert ár, fundi formannaráðs sem haldnir eru a.m.k. þrisvar sinnum á ári, stjórnarfundi BSRB eru haldnir hálfsmánaðarlega. Einnig nefndir sem starfa á vegum bandalagsins sem hittast að jafnaði mánaðarlega og eru:

• Nefnd um vinnumarkað, kjaramál og lífeyrismál
• Nefnd um fjölskylduvænna samfélag og jafnréttismál
• Nefnd um mennta- og fræðslumál
• Nefnd um velferðarmál
• Réttindanefnd

 BSRB fylgist jafnframt með þingmálum á Alþingi og sendir umsagnir um mál sem varða hagsmuni launafólks í víðum skilningi. Það á jafnt við um frumvörp og þingsályktunartillögur. Þá er algengt að fulltrúar BSRB fylgi umsögn eftir fyrir nefndasviði Alþingis þegar hlutaðeigandi nefnd þingsins tekur málið til umfjöllunar.

Af norrænu og alþjóðlegu starfi má nefna að BSRB á aðild að NFS – norrænum heildarsamtökum launafólks, NOFS – norrænum samtökum opinberra starfsmanna, EPSU – evrópskum heildarsamtökum opinberra starfsmanna, ETUC – evrópskum heildarsamtökum launafólks og PSI – alþjóðasamtök opinberra starfsmanna. BSRB á jafnframt fulltrúa í ráðgjafarnefnd EFTA.

Félagamiðstöðin 

Félagamiðstöðin að Grettisgötu 89 hýsir höfuðstöðvar BSRB. Félagamiðstöðin er sameign BSRB og nokkurra aðildarfélaga bandalagsins sem eru með skrifstofur í húsnæðinu. Auk skrifstofuaðstöðu eru fundarsalir, mötuneyti og samkomusalur sem nýtist til námskeiða, funda og mannamóta.

Auk BSRB eru eftirtalin félög með skrifstofur í húsinu: Landssamband lögreglumanna, Póstmannafélag Íslands, Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, SFR starfsmannafélag í almannaþjónustu, Félag flugmálastarfsmanna ríkisins og Félag íslenskra flugumferðastjóra. Auk þess er í húsinu Styrktarsjóður BSRB.